Voces Thules – Loksins á Siglufirði …

Frá tónleikunum - nýjasti meðlimur VT, Arngerður Árnadóttir mætt á sviðÞað var löngu tímabært að Voces Thules syngju á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði og það gerðist einmitt á  hátíðinni sem fram fór 6.-10. júlí 2011. Sungnir voru tónleikar í Bátahúsinu við ótrúlega skemmtilegar aðstæður, tónleikapallurinn var síldarbátur og áheyrendur, sem fylltu húsið, sátu á bryggjum og ýmsu sem tengdist sögu Siglufjarðar. Yfirskrift hátíðarinnar var Látum dansinn duna og af því tilefni reiddu Voces Thules fram gömul danskvæði í bland við trúarlega tónlist og efni úr fornbókmenntunum. Hér má sjá blaðagrein/gagnrýni um hátíðina og tónleika Voces Thules úr fréttablaðinu 14. júlí.

Þriðjudagskvöld í Þingvallakirkju

Voces Thules sungu á tónleikaröðinni Þriðjudagskvöld í Þingvallakirkju þann 5. júlí 2011.  Stemmingin var einstök og kirkjan full út úr dyrum og annar eins fjöldi tónleikagesta naut tónleikanna á kirkjuhellunni framan við kirkjuna í einstakri veðurblíðunni.  Brugðið var á það ráð að flytja síðari hluta tónleikanna út úr kirkjunni og voru þeir haldnir við austurgafl hennar og gátu þá tónleikagestir tyllt sér á þjóðargrafreitinn og hlýtt á.  Tónlistin barst víða um hinn helga stað og stórir hópar ferðamanna, sem örugglega áttu ekki von á að fá skammt af íslenskri miðaldartónlist í skoðunarferð sinni um Þingvelli, stöldruðu við og hlýddu á.Áheyrendur tylltu sér á þjóðargrafreitinn og hlýddu á miðaldartónlist

Stefánshellir, Voces Thules og IsNord

Tónleikastaðir eru ekki alltaf hefðbundnir hjá hópnum Voces Thules. Þann 12.júní 2011 söng hópurinn á tónlistararhátíðinni IsNord á tónleikum sem haldnir voru í Stefánshelli í Hallmundarhrauni.  Tónleikarnir voru fjölsóttir þótt ekki hafi verið húsfyllir enda má lengi troða fólki í rúmgóðan helli. Myndin var tekin inn að hellisveggnum þaðan sem tónlistin var flutt .

Heimsókn til Sevilla

Voces Thules voru með smiðju og fyrirlestur á “The international conference for the European Association of Dance Historians” í Sevilla á Spáni 23.,24. og 25. september, þar sem þátttakendur voru bæði nemendur í Conservatorio de danza svo og fulltrúar fjölmargra Evrópulanda á ráðstefnunni. Hópurinn miðlaði þáttum úr rannsóknum Sigríðar Valgeirsdóttur með aðstoð Darrens Royston dansfræðings sem hefur kynnt sér ítarlega rannsóknir hennar.

Hópurinn hélt síðan tónleika í fornaldarbænum Carmona á vegum menningarskrifstofu bæjarins.„Voces Thules spiluðu við nokkuð sérkennilegar aðstæður í Conservatorio Profesional de danza í Sevilla. Meira lifandi verður tónlistarflutningur ekki
“.

„Áhugaverð stafsetning á ýmsu á auglýsingaveggspjaldi í Carmona“.

„Ákveðið var að taka ljósmynd sem skrýða mun næsta hljómdisk Voces Thules sem á að heita “Kafað enn betur í söguna“.

Hurdy Gurdy í vörslu Voces Thules

Voces Thules hafa að undanförnu verið með að láni hljóðfæri nokkurt ægifagurt og hljómþýtt sem RÚV, útvarp allra landsmanna á og hefur nýlega látið yfirfara og lagfæra. Hljóðfærið er 19. aldar Hurdy Gurdy sem, eins og sést, þar sem það hvílir í fangi Sigurðar Halldórssonar, mikil völundarsmíð. Fullyrða má að það fái veglegt hlutverk nú meðan Voces Thules hefur það að láni því sönghópurinn hefur hafið rannsóknir á dönsum og leikjum fornum þar sem hljóðfæri þessarar gerðar voru notuð til tónlistarflutnings fyrr á öldum.

Hljóðfærið hefur verið í eigu RÚV lengur en elstu menn muna, það var smíðað í Frakklandi árið 1863 og elstu starfsmenn RÚV muna eftir hljóðfærinu í hálfgerðu reiðuleysi í skápum hjá útvarpinu á Skúlagötu og enginn man til þess að það hafi nokkurn tíman verið notað.

Það var tónmeistari Ríkisútvarpsins, Bjarni Rúnar Bjarnason, sem hafði veg og vanda að því að ráðist var í það þjóðþrifaverk að gera hljóðfærið upp og koma því í gott lag. Hann hafði síðan milligöngu um að þessi þjóðareign fengi veglegt hlutverk í höndum Voces Thules.

Í útvarpsþættinum Víðsjá á Rás 1 þann 31. maí 2010 var veitt örlítil innsýn í galdra tækisins.
Þáttinn má nálgast með því að smella hérna

Update to vocesthules.is v2.0

Hello fans … new site under constrction!

Voces Thules á NOMEMUS miðaldartónlistarhátíðinni

Dagana 10. – 12. september 2010 var Voces Thules boðið að koma fram á miðaldatónlistarhátíðina NOMEMUS sem haldin var í tengslum við Söderköpings Gästebud í bænum Söderköping í Svíþjóð. Bæði tónlistarhátíðin og „gestaboðið“ er helgað liðnum tíma með áherslu á annars vegar miðaldatónlist með tónlist frá árunum 1200 -1300 en einnig lifnaðarhætti og menningu aðra á miðöldum.

Á tónlistarhátíðinni sungu Voces Thules tónleika þar sem dagskránni var skipt upp í kirkjulega (Vesper), söngdansa, drauma og fyrirboða úr Sturlungu og bardagakvæði. Tónleikarnir voru haldnir í Drothems Kyrka, kirkju sem byggð var á 13. öld og hentaði vel fyrir þann tónlistarflutning sem Voces Thules buðu uppá fyrir fullu húsi.


Drothems Kyrka
Voces Thules voru einnig beðnir að syngja á útiskemmtun í „Gestaboðinu“ en hún fór fram í samvinnu við hestamannafélag heimamanna sem heitir „Ridum“ en í því eru hestamenn sem ríða íslenskum hestum. Íslensku hestarnir virtust kunna vel að meta að hitta landa sína í Voces Thules og töltu, skeiðuðu, brokkuðu og jafnvel dönsuðu í takt við tónlistina sem Voces Thules frömdu við logandi kyndla á útihátíðarsvæði í jarði bæjarins.

Auk framangreinds voru Voces Thules með fyrirlestu um íslenska miðaldatónlist með áherslu á dagskrána í Drothems Kyrka.

Voces Thules syngja úr Sturlungu!

Tónleikar í Fríkirkjunni í Reykjavík 26. ágúst n.k.

Voces Thules syngja úr Sturlungu!

Miðvikudagskvöldið 26. ágúst kl. 20.30 heldur sönghópurinn Voces Thules tónleika í Fríkirkjunni í Reykjavík. Þungamiðja tónleikanna verður “draumar og fyrirboðar fyrir Örlygsstaðafund” sem skráðir eru í Sturlungu. Tímasetningin er viðeigandi því nú um þessar mundir, nánar tiltekið í gær, 21. ágúst, var 771 ár liðið frá Örlygsstaðafundi, þeim atburði sem markar upphaf endaloka þess tímabils í Íslandssögunni er Íslendingar réðu sínum málum sjálfir og varði það ástand um aldir.

Draumar og fyrirborðar er flokkur kvæða sem kveðin voru fólki í draumi í aðdraganda Örlygsstaðabardaga, og hefur hópurinn tónsett kvæðin og útsett fyrir raddir og miðaldahljóðfæri í samvinnu við Arngeir H. Hauksson. Tónlistin kom út á hljómdiski fyrr á þessu ári en sönghópurinn var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs fyrir útgáfuna. Auk kvæðanna úr Sturlungu flytur hópurinn bæði kirkjulega og veraldlega tónlist sem spannar miðaldirnar í íslenskri sönghefð, allt frá þáttum úr Völuspá og Höfuðlausn Egils Skallagrímssonar til trúartónlistar sem skrifuð var í íslenskum klaustrum framá miðja 16. öld.
Sönghópurinn hélt nýlega tónleika, m.a. í Þykkvabæjarklausturskirkju í Álftaveri á Þorláksmessu á sumri, en fyrsti ábótinn þar var Þorlákur helgi, og á Sturlungaslóð í Skagafirði, í kirkjunni á Miklabæ þar sem Sturlungar voru stráfelldir árið 1238. Þá mun hópurinn koma fram á fyrsta þingi Rikinifélagsins að Hólum í Hjaltadal 29.-30 ágúst n .k. þar sem fjölmargir iðkendur fornrar íslenskrar tónlistar munu koma saman og flytja tónlist frá ýmsum tímum.
Tónleikarnir í Fríkirkjunni eru liður í þessari yfirferð sumarsins og þeir einu í Reykjavík á þessu sumri. Miðar verða seldir við innganginn.

Útgáfur Voces Thules

Ljósmyndir af útgáfum Voces Thules


· Þorlákstíðir.
Officium S.Thorlaci, þrír geisladiskar og DVD-diskur að auki. Útgefandi Voces Thules 2006

· Sé ég eld yfir þér
Sék eld of þér – draumar og fyrirborðar fyrir Örlygsstaðabardaga. Útgefandir Voces Thules 2009.

Hvoru tveggja fáanlegt hjá 12 tónum við Skólavörðustíg, sem annast dreifingu en auk þess í mörgum hljómplötuverslunum.
Einnig fáanlegt hjá meðlimum Voces Thules og á www.gogoyoko.is