Sagan

Sönghópurinn Voces Thules kom fyrst fram í ágúst 1991. Þá höfðu meðlimirnir unnið saman í nokkur ár við ólíkar kringumstæður með ýmsum söng- og kammerhópum. Við það tækifæri voru það Eggert Pálsson, Guðlaugur Viktorsson, Ragnar Davíðsson og Sigurður Halldórsson sem sungu. Á næstu tónleikum hópsins, og þeim fyrstu undir endanlegu nafni, á óháðu listahátíðinni Loftárás á Seyðisfjörð sumarið 1992 bættist Sverrir Guðjónsson við, en hann var þá nýfluttur til landsins frá námi í London þar sem hann og Sigurður höfðu starfað saman í tvö ár í sönghóp, m.a. með Sigurði Þorbergssyni sem söng svo með Voces Thules frá 1995-1997. Fjöldi söngvara í hópnum hefur verið á bilinu 4 til 8 allt eftir verkefnum. Og hann er bæði skipaður atvinnusöngvörum og hljóðfæraleikurum með sérstakan áhuga fyrir samsöng.

Í fyrstu fór mest fyrir miðalda- og endurreisnartónlist frá meginlandi Evrópu og Bretlandseyjum á efnisskrám hópsins. Fljótlega bætti hann við nýrri tónlist og nokkur íslensk tónskáld skrifuðu fyrir hann, m.a. Hjálmar H. Ragnarsson, John Speight, Jónas Tómasson, Oliver Kentish og Jón Nordal. Fljótlega fór hópurinn að bæta einstaka fornum íslenskum lögum inní. Fyrst í lok árs 1993 á 800 ára dánarafmæli Þorláks Þórhallssonar biskups og fyrsta íslenska dýrlingsins. Við það tækifæri ákváðu Voces Thules að stefna að heildarflutningi á Þorlákstíðum, sem ritaðar eru í einu merkasta tónlistarhandriti á Íslandi. Á Listahátíð í Reykjavík 1998 í Kristskirkju voru svo tíðirnar fluttar í heild á fimm tónleikum. Þá hafði Eggert Pálsson skrifað upp allt handritið samkvæmt nótnaritunarhefðinni fyrir gregorískan söng, en eftir ýmsar tilraunir reyndist ófært að syngja tíðirnar svo vel færi, hvorki upp úr eftirprentun af handritinu né umritun Róberts A. Ottossonar. En doktorsritgerð hans var að sjálfsögðu langmikilvægasta tæki hópsins til að nálgast efnið.

Þá voru fastir meðlimir í hópnum 6. Þeir Einar Jóhannesson og Eiríkur Hreinn Helgason höfðu bæst við í aðdraganda flutnings Þorlákstíða, en þeir Eggert, Guðlaugur, Sigurður H. og Sverrir voru áfram en þeim til fulltingis í skrautlegustu þáttunm tíðanna sungu einnig þeir sr. Jakob Rolland og sr. Kristján Valur Ingólfsson sem að auki lögðu mikið að mörkum við undirbúninginn, bæði fyrir flutninginn sem og hljóðritun og útgáfu sem hópurinn réðist í í kjölfarið. Sveinn Kjartansson sá um hljóðritunina sem fór fram í Hallgrímskirkju. Þorlákstíðir komu út á fjórum geisladiskum og í veglegri bók hannaðri af Brynju Baldursdóttur árið 2006 og hlaut Íslensku Tónlistarverðlaunin sem plata ársins.

Á meðan vinnan við Þorlákstíðir fór fram varð aðalviðfangsefni hópsins smám saman íslensk miðaldatónlist. Fyrst um sinn aðallega kirkjutónlist úr handritum en seinna meir einnig veraldlegur kveðskapur úr fornritunum. Þar hafa Voces Thules nýtt sér þjóðlög sem eru talin fornnorræn og lagað þau að öðrum textum, sérstaklega þau lög sem ganga við dróttkvæðan hátt. Einnig hafa þeir endurskapað stef útfrá ýmsum miðaldahljóðfærum sem þekkt voru á Íslandi sem byggjast á þeim hryn sem viðkomandi texti gefur til kynna. Þeir hafa unnið tónlist úr Sturlungu í samvinnu við Arngeir Heiðar Hauksson sem hefur sérhæft sig í leik á ýmis miðaldahljóðfæri, en einnig hafa Voces Thules komið sér upp safni af miðaldahljóðfærum.

Voces Thules hafa sungið á ýmsum hátíðum og við ýmis tækifæri víða um heim. Auk Listahátíðar í Reykjavík 1996, 1998 og 2006 hafa þeir komið fram á Stamford Early Music Festival 1996, Norrænni listahátíð í Eystrasaltslöndunum 1997, Utrecht forntónlistarhátíðinni 2001, Listahátíðinni í Bergen 2002, “46664” baráttutónleikum til heiðurs Nelson Mandela í Tromsö 2005, 4 vikna tónleikaferð um helstu borgir Japan 2005, tónleikum í Amsterdam og Groningen í Hollandi sem gestir Hollensku Blásarasveitarinnar og á Sumartónleikum í Skálholtskirkju 1996, 1997, 1998, 2000, 2002 og 2005.

 

Króníka

1993 Voces Thules flytja kafla úr Þorlákstíðum í Kristskirkju,Landakoti,

30. desember á 800 ára dánarafmæli Þorláks biskups Þórhallssonar.

1994 Hópurinn fer í æfingabúðir í Skálholtiáhvítasunnu. Rannsóknarvinna hefst.

1995 Hljóðritun á Vesper I (aftansöng) í Skálholtskirkju fyrir Ríkisútvarpið.

1996 Ráðist í umritun Þorlákstíða. Voces Thules boðið á listahátíð í Lincolnshire, Englandi, en Þorlákur lærði til prests í Lincoln á 12. öld. Í kapellu Háskólans í Lincoln er steindur gluggi með mynd af honum ásamt öðrum dýrlingum

Tónleikar Voces Thules helgaðir Þorláki á Norðurljósahátíð Musica Antiqua í anddyri Háskóla Íslands. Hljóðritað af Ríkisútvarpinu.

Handrit Þorlákstíða sent frá Kaupmannahöfn heim til Íslands.

Heimsókn í höfuðklaustrið Abbaye Saint Pierre í Solesmes, rétt utan við París, en Þorlákur lærði til kórherra í París að loknu prestsnámi. Í klaustrinu hefur varðveist ómetanleg þekking á gregorsöng í miðalda- handritum. Fundur með Bróður Daniel Saulnier. Hann ritar síðar grein í heildarútgáfu Voces Thules á Þorlákstíðum.

1997 Voces Thules-hópnum boðið á norræna listahátíð Eystrasaltslanda.
Tónleikar haldnir í Tallinn, Riga og Vilnius.

Undirbúningur hafinn að heildarflutningi Þorlákstíða.

1998 Heildarflutningur Þorlákstíða í 5 áföngum á Listahátíð í Reykjavík um hvítasunnuhelgina. Fornri hefð fylgt og endað á hámessu.
Námskeið Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands um Þorlákstíðir.

Handrit Þorlákstíða lagt fram til sýnis í Árnastofnun.

Þorláksmessa á sumar sungin í Skálholtskirkju 800 árum eftir að beinaupptakan fór fram 20. júlí 1198.

Voces Thules syngja við opnun myndlistarsýningarinnar Dýrlingur Íslands
í anddyri Hallgrímskirkju í samvinnu við Listvinafélag Hallgrímskirkju. 6 myndlistarmenn unnu verk tengd dýrlingnum: Kristín G. Gunnlaugsdóttir, Helgi Þorgils Friðjónsson, Gunnar Örn Gunnarsson, Jón Axel Björnsson, Páll Guðmundsson á Húsafelli og Kristján Davíðsson. Á sýningunni var einnig eftirmynd af hinu kunna altarisklæði frá Hólum í Hjaltadal með dýrlingunum þremur.

„Dýrlingur Íslands“ (Pastor Hyslandie), sjónvarpsþáttur unninn fyrir Ríkissjónvarpið og sendur út á Þorláksmessu, 23. desember

Voces Thules hlutu Íslensku tónlistarverðlaunin2007 í flokki sígildrar og samtímatónlistar fyrir heildarhljóðritanir á Þorlákstíðum, helsta tónlistarhandriti á Íslandi frá miðöldum.

Tónleikar í Groningen og Amsterdam í mars 2007, sem gestir Hollensku blásarasveitarinnar.
Prógrammið hét “Ijs en vuur” (ís og eldur) og var inní viðamiklu ársprógrammi Hollensku blásarasveitarinnar (Nederlands Blasers Ensemble – NBE). Sveitin bauð Áskeli Mássyni og Voces Thules sem sérstökum gestum. Efnisskrá tónleikanna samanstóð af tónlist Áskels og fornri íslensk tónlist, bæði miðaldakvæði í flutningi og útfærslu Voces Thules og rímnalög sem félagar úr NBE útfærðu á fjölbreytilegan hátt.

“Sék eld of þér” (Sé ég eld yfir þér), geisladiskur, kom út föstudaginn 13. febrúar 2009. Geisladiskurinn inniheldur tónlist sem Voces Thules, ásamt Arngeiri Heiðari Haukssyni, settu við draumkvæði úr Sturlungu sem sagan hermir að sögupersónur hafi dreymt fyrir Örlygsstaðabardaga hinn 21. ágúst 1238. Diskinum var fylgt eftir með útgáfutónleikum í Iðnó þann dag.. Diskurinn er gefinn út í sérstakri hátíðarútgáfu í 1238 númeruðum eintökum.

Sönghópurinn Voces Tules var þann 5. maí 2009 tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs fyrir flytjendur ársins 2008.

 

One Response to “Sagan”

 1. gudjon rudolf Says:
  janúar 15th, 2016 at 09:36

  halló.

  jég er búinn að hafa þennann söng á heilanum í mera en eitt ár það er að seigja trölla slag dásamlegur flutningur og lag.
  Vildi spyrja um hvort ég mætti nota lagið og gamman væri að fá uplýsingar um það og textan.

  væri frábært að heira frá ykkur með fyrir framm þökk
  Guðjó Rúdólf

Leave a Reply

*