Voces Thules – Loksins á Siglufirði …

Frá tónleikunum - nýjasti meðlimur VT, Arngerður Árnadóttir mætt á sviðÞað var löngu tímabært að Voces Thules syngju á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði og það gerðist einmitt á  hátíðinni sem fram fór 6.-10. júlí 2011. Sungnir voru tónleikar í Bátahúsinu við ótrúlega skemmtilegar aðstæður, tónleikapallurinn var síldarbátur og áheyrendur, sem fylltu húsið, sátu á bryggjum og ýmsu sem tengdist sögu Siglufjarðar. Yfirskrift hátíðarinnar var Látum dansinn duna og af því tilefni reiddu Voces Thules fram gömul danskvæði í bland við trúarlega tónlist og efni úr fornbókmenntunum. Hér má sjá blaðagrein/gagnrýni um hátíðina og tónleika Voces Thules úr fréttablaðinu 14. júlí.

Þriðjudagskvöld í Þingvallakirkju

Voces Thules sungu á tónleikaröðinni Þriðjudagskvöld í Þingvallakirkju þann 5. júlí 2011.  Stemmingin var einstök og kirkjan full út úr dyrum og annar eins fjöldi tónleikagesta naut tónleikanna á kirkjuhellunni framan við kirkjuna í einstakri veðurblíðunni.  Brugðið var á það ráð að flytja síðari hluta tónleikanna út úr kirkjunni og voru þeir haldnir við austurgafl hennar og gátu þá tónleikagestir tyllt sér á þjóðargrafreitinn og hlýtt á.  Tónlistin barst víða um hinn helga stað og stórir hópar ferðamanna, sem örugglega áttu ekki von á að fá skammt af íslenskri miðaldartónlist í skoðunarferð sinni um Þingvelli, stöldruðu við og hlýddu á.Áheyrendur tylltu sér á þjóðargrafreitinn og hlýddu á miðaldartónlist

Stefánshellir, Voces Thules og IsNord

Tónleikastaðir eru ekki alltaf hefðbundnir hjá hópnum Voces Thules. Þann 12.júní 2011 söng hópurinn á tónlistararhátíðinni IsNord á tónleikum sem haldnir voru í Stefánshelli í Hallmundarhrauni.  Tónleikarnir voru fjölsóttir þótt ekki hafi verið húsfyllir enda má lengi troða fólki í rúmgóðan helli. Myndin var tekin inn að hellisveggnum þaðan sem tónlistin var flutt .