Voces Thules syngja úr Sturlungu!

Tónleikar í Fríkirkjunni í Reykjavík 26. ágúst n.k.

Voces Thules syngja úr Sturlungu!

Miðvikudagskvöldið 26. ágúst kl. 20.30 heldur sönghópurinn Voces Thules tónleika í Fríkirkjunni í Reykjavík. Þungamiðja tónleikanna verður “draumar og fyrirboðar fyrir Örlygsstaðafund” sem skráðir eru í Sturlungu. Tímasetningin er viðeigandi því nú um þessar mundir, nánar tiltekið í gær, 21. ágúst, var 771 ár liðið frá Örlygsstaðafundi, þeim atburði sem markar upphaf endaloka þess tímabils í Íslandssögunni er Íslendingar réðu sínum málum sjálfir og varði það ástand um aldir.

Draumar og fyrirborðar er flokkur kvæða sem kveðin voru fólki í draumi í aðdraganda Örlygsstaðabardaga, og hefur hópurinn tónsett kvæðin og útsett fyrir raddir og miðaldahljóðfæri í samvinnu við Arngeir H. Hauksson. Tónlistin kom út á hljómdiski fyrr á þessu ári en sönghópurinn var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs fyrir útgáfuna. Auk kvæðanna úr Sturlungu flytur hópurinn bæði kirkjulega og veraldlega tónlist sem spannar miðaldirnar í íslenskri sönghefð, allt frá þáttum úr Völuspá og Höfuðlausn Egils Skallagrímssonar til trúartónlistar sem skrifuð var í íslenskum klaustrum framá miðja 16. öld.
Sönghópurinn hélt nýlega tónleika, m.a. í Þykkvabæjarklausturskirkju í Álftaveri á Þorláksmessu á sumri, en fyrsti ábótinn þar var Þorlákur helgi, og á Sturlungaslóð í Skagafirði, í kirkjunni á Miklabæ þar sem Sturlungar voru stráfelldir árið 1238. Þá mun hópurinn koma fram á fyrsta þingi Rikinifélagsins að Hólum í Hjaltadal 29.-30 ágúst n .k. þar sem fjölmargir iðkendur fornrar íslenskrar tónlistar munu koma saman og flytja tónlist frá ýmsum tímum.
Tónleikarnir í Fríkirkjunni eru liður í þessari yfirferð sumarsins og þeir einu í Reykjavík á þessu sumri. Miðar verða seldir við innganginn.